Aðdragandi að stofnun Þjóðbúningaráðs

Árið 1969 hélt Þjóðminjasafn Íslands sýningu á íslenskum kvenbúningum. Að þeirri sýningu komu líka fulltrúar frá Heimilisiðnaðarfélagi Íslands, Kvenfélagasambandi Íslands og Þjóðdansafélagi Reykjavíkur. Í kjölfar sýningarinnar stofnuðu þessir aðilar Samstarfsnefnd um íslenska þjóðbúninga. Markmið nefndarinnar var að viðhalda þekkingu á íslenskum þjóðbúningum, kynna þá og stuðla að notkun þeirra. Nefndin hafði ekki fasta fjárveitingu en fékk styrki frá aðilum og stofnunum til ákveðinna verkefna.

Samstarfsnefndin gaf fljótlega út bæklinga um gerð peysufata og upphluta, síðar einnig myndband og nýjan bækling um fjórar gerðir íslenskra búninga, peysuföt, upphlut, skautbúning og kyrtil. Á níunda áratugnum var í nokkur ár starfrækt þjónustudeild sem leiðbeindi um gerð íslenskra búninga í húsakynnum Heimilisiðnaðarfélagsins og oft voru þar sýningar á íslenskum búningum. 

Samstarfsnefndin tók fljótlega þátt í norrænu samstarfi á þessu sviði og hafa þau samskipti bæði aukið þekkingu um norræna búninga, snið og saumatækni og gert auðveldara en ella að útvega viðeigandi efni í búninga.

Haustið 1998 var skipuð ný samstarfsnefnd sömu aðila og áður að viðbættum fulltrúa Minjasafns Reykjavíkur. Nefndin kynnti starf sitt og hugmyndir um framtíðarverkefni fyrir menntamálanefnd alþingis. Í kjölfar þess var lögð fram þingsályktunartillaga um Þjóðbúningaráð sem alþingi samþykkti árið  1999.© Allur réttur áskilinn Þjóðbúningaráð buningurinn@thjodminjasafn.is Suðurgötu 43, 101 Reykjavík Sími: 5302200