Skotthúfa

Skotthúfur hafa verið notaðar um aldir á Íslandi. Allar enda þær í skotti efst, við skottið er festur skúfur og hólkur hafður á mótum skotts og skúfs. Á 18. og 19. öld var húfan djúp, prjónuð úr svörtu, stundum svarbláu, fínu ullarbandi og með skúf úr ullarbandi. Á síðari hluta 19. aldar voru notaðar grunnar, prjónaðar skotthúfur, oft mjög litlar og með löngum silkiskúf. Við 20. aldar búninga er húfan ýmist prjónuð eða sniðin og saumuð úr svörtu flaueli og skúfurinn hafður úr svörtu silki. Húfan er fest við hárið með svörtum títuprjónum eða hárnálum sem ekki eiga að sjást. Stundum er saumaður kambur innan í húfuna að framan eða til hliðar, gengt skúfnum, til að auðvelda festingu við hárið. Grunn skotthúfa er eingöngu notuð við 20. aldar búninga, en djúp skotthúfa er notuð við faldbúninga og elstu gerðir peysufata og upphluts.© Allur réttur áskilinn Þjóðbúningaráð buningurinn@thjodminjasafn.is Suðurgötu 43, 101 Reykjavík Sími: 5302200