Búningar á 20. öld

Norska húsið Stykkishólmi Þjóðbúningadagur 2010Á fyrri hluta 20. aldar urðu miklar breytingar á íslensku samfélagi. Þjóðin barðist fyrir sjálfstæði sínu og fékk það. Tækniframfarir leiddu til breyttra atvinnuhátta og byggðamunsturs og aukinna samskipta við útlönd.

Við konungskomuna 1907 var hannaður búningur á þær stúlkur sem þjónuðu í konungsveislum.  Þá var tekið mið að upphlutnum sem verið hafði hluti af klæðnaði íslenskra kvenna um aldir án þess þó að teljast sjálfstæður búningur. Búningur þjónustustúlknanna var svartur og skyrtur og svuntur hvítar. Hann vakti mikla athygli og varð til þess að fjöldi kvenna fór að koma sér upp sambærilegum búningum. Upphluturinn varð sjálfstæður búningur. Á tímabili voru notuð alls kyns litskrúðug gerviefni í skyrtur og svuntur en á síðustu áratugum aldarinnar fóru konur aftur að nota hvítar skyrtur og ullarefni í svuntur við 20. aldar upphlut. Peysuföt tóku líka breytingum hvað varðaði snið og efni og framan af öldinni héldu nokkrar konur í þau sem spariklæðnað. Skautbúningar og kyrtlar náðu hins vegar ekki að verða almenningseign.

Upp úr miðri öldinni vaknaði áhugi fólks á búningum fyrri alda. Þar fór fremst í flokki fólk í Þjóðdansafélagi Reykjavíkur sem kom sér upp slíkum búningum með aðstoð Þjóðminjasafns og Elsu E. Guðjónsson. Félagar saumuðu sér búninga með 19. aldar upphluti, faldbúninga og gamla karlabúninga sem fyrirmyndir. Undir lok aldarinnar lagðist hópur innan Heimilisiðnaðarfélags Íslands líka í rannsóknar- og þróunarvinnu til að hægt væri að bjóða upp á námskeið í gerð búninga í samræmi við klæðnað fyrri alda.   © Allur réttur áskilinn Þjóðbúningaráð buningurinn@thjodminjasafn.is Suðurgötu 43, 101 Reykjavík Sími: 5302200