Búningar á 19. öld

Konur í íslenskum kvenbúningum 19. júní 1930 á Stokkseyri.  Ljósmynd Haraldur Blöndal.  Eign Þjóðminjasafns Íslands.

Í upphafi 19. aldar var faldbúningurinn enn almennur en hafði breyst. Hann var dökkur og pilsið samfella sem sparaði klæði sem annars hefði farið í lausa svuntu. Á höfði hafði krókfaldur þróast í  spaðafald eða að notuð var skotthúfa. Um miðja öldina var faldbúningurinn orðinn fátíður og á seinni hluta aldarinnar varð skautbúningur Sigurðar Guðmundssonar sparibúningur í stað faldbúningsins ef konur létu sér þá ekki nægja peysuföt eða einhvern allt annan og nútímalegri klæðnað.

Upphlutsbolurinn var hluti af faldbúningnum. Hann gat verið fastur við eitt undirpilsið en þau voru oft mörg. Kona við vinnu fór gjarnan úr treyju og faldbúningspilsi, ekki síst ef heitt var eða hún vildi hlífa útsaumuðu pilsi og treyju. Þá var hún í upphlutnum einum og undirpilsi. Ef hún vildi verja pilsið fyrir óhreinindum setti hún á sig einfalda svuntu sem fór yfir pilsið að framan og á mjöðmum. Þá var í raun kominn sá búningur sem kallaður er upphlutur. Á 19. öld var ekki litið á hann sem sérstakan búning heldur nærklæði eða vinnuföt.

Á seinni hluta 18. aldar voru konur ekki aðeins farnar að nota meira en áður prjónaðar skotthúfur heldur líka einfaldar prjónaðar peysur í stað skreyttu vaðmálstreyjunnar. Þá var stutt í að upphlutnum væri alveg sleppt og peysan lengd svo að festa mætti pilsið við hana. Þarna var þá kominn húfu- og peysubúningur sem nú kallast peysuföt. Faldbúningurinn varð sífellt sjaldgæfari en peysuföt tóku við sem sparibúningur. Við peysuna voru konur í dökku pilsi og hlífðu því með breiðri dúksvuntu.  © Allur réttur áskilinn Þjóðbúningaráð buningurinn@thjodminjasafn.is Suðurgötu 43, 101 Reykjavík Sími: 5302200