Búningar á 15.–18. öld

Vatnslitamynd frá árinu 1791, sem Edward Dayes gerði eftir leiðangur barónsins J.T. Stanleys  til Íslands árið 1789. Þessi er ársett með áletrun 1791.   Þjóðminjasafn Íslands, Stanley 12. Á spássíum íslenskra handrita frá 15. öld má sjá teikningar af konum sem eru í einhvers konar faldbúningi, með hvítan fald á höfði, í þröngri, ermalangri treyju og felldu víðu pilsi. Allt eru þetta búningshlutar sem konur klæddust að minnsta kosti frá þessum tíma og næstu 300-400 árin. Frá 16. og 17. öld eru líka til teikningar af konum með fald eða vaf um höfuðið og húfur eða hatta yfir þeim, með pípukraga um háls, í lituðum búningum og með handlínur og skraut og sumar í hempum yst fata. Meira er vitað um búninga frá 18. öld en þá sem eldri eru. Bæði eru til lýsingar og teikningar landkönnuða, búningshlutar hafa varðveist og jafnvel heilu búningarnir frá síðasta hluta aldarinnar. Margir búningar voru íburðarmiklir, úr litskrúðugu klæði, útsaumaðir, skreyttir innfluttum, skrautlegum silkiklútum og hlaðnir ættarsilfri sem gengið hafið konu fram af konu. Efnið var ekki sparað, pilsin voru vel víð og svuntan laus. Á höfði var vafinn krókfaldur en líklega líka skotthúfa hversdags og heimavið.

Íslendingar áttu erfiða daga á 18. öld. Farsóttir í fólki og fé, einokunarverslun í algleymingi, Skaftáreldar, móðuharðindi og jarðskjálftar. Bústofn og fólk hrundi niður. Ekki er að undra að föt fólks hafi tekið breytingum, þau hafi orðið einfaldari og ódýrari og skiljanlegt að erfðagóssið hafi verið brætt upp og heilu búningarnir seldir úr landi. Prjónuð föt urðu algengari en áður en í prjónaða flík fer minna band en í sambærilega flík sem saumuð er úr ofnu klæði.© Allur réttur áskilinn Þjóðbúningaráð buningurinn@thjodminjasafn.is Suðurgötu 43, 101 Reykjavík Sími: 5302200