Pils

Síð, felld pils eru hluti af íslenskum kvenbúningum.

Millipils. Niðurhlutur. Peysufatapils, upphlutspils. Samfella. Skófóður. Styttuband.

Millipils

Sítt nærpils eða undirpils borið undir búningspilsi. Oft voru konur í mörgum millipilsum.   Ljósmynd úr Földum og skarti/Þorgerður Hlöðversdóttir.

Niðurhlutur

Niðurhlutur er gamalt orð yfir pils, sérstaklega millipils sem saumað var við upphlut, einnig laus pils sem notuð voru við upphlut, peysu eða dagtreyju.

Peysufatapils, upphlutspils

Svart, stundum svarblátt, sítt pils sem notað er við peysu, dagtreyju eða upphlut. Pilsið er fellt undir 2-3 cm breiðan streng frá vinstri til hægri, þéttfellt að aftan, minna fellt á mjöðmum en slétt að framan. Fellingar að aftan geta verið 4-7 cm að dýpt. Nú orðið eru pilsin oftast saumuð úr vönduðu ullarefni.

Samfella

Pils 19. aldar faldbúnings. Því fylgir ekki laus svunta heldur er sem samlit svunta sé felld inn í pilsið og samskeyti brydduð frá streng að faldi. Pils skautbúnings heitir einnig samfella.

Skófóður

Um 30cm breið ræma af fóðurefni neðst, innanvert á pilsum og faldbúningssvuntum til hlífðar þeim. Myndin sýnir pils og svuntu, skófóður sést á svuntu.   Ljósmynd úr Földum og skarti/Þorgerður Hlöðversdóttir.

Styttuband

Styttubönd voru notuð til að stytta pils. Konur bundu band um mjaðmir sér, utan yfir pilsið, og toguðu pilsið upp fyrir bandið. Þannig blotnaði það síður eða óhreinkaðist. Styttubönd voru gjarnan spjaldofin eða fótofin.

   


© Allur réttur áskilinn Þjóðbúningaráð buningurinn@thjodminjasafn.is Suðurgötu 43, 101 Reykjavík Sími: 5302200